Osama bin Laden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá أسامة بن لادن)
Osama bin Laden
أسامة بن لادن
Osama bin Laden u.þ.b. 1997.
Fæddur10. mars 1957
Dáinn2. maí 2011 (54 ára)
ÞjóðerniSádi-arabískur (til 1994)
Ríkisfangslaus (1994–2011)
TrúSúnní
MakiNajwa Ghanem (g. 1974; sk. 2001)
Khadijah Sharif (g. 1983; sk. 1990)
Khairiah Sabar (g. 1985)
Siham Sabar (g. 1987)
Amal Ahmed al-Sadah (g. 2000)
Börn20–26

Osama bin Laden (f. 10. mars 1957, d. 2. maí 2011; fullu nafni Osama bin Múhammeð bin Avad bin Laden; á arabísku أسامة بن محمد بن عوض بن لادن) var stofnandi Al-Kaída, hryðjuverkasamtaka súnní-íslamista. Samtökin hafa komið nálægt fjölmörgum árásum á borgaraleg jafnt sem hernaðarleg skotmörk úti um allan heim, þar á meðal eru árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001 sem urðu að minnsta kosti 2.752 manns að bana.

Osama taldi sig og samtök sín berjast fyrir hagsmunum múslima; ein krafa hans var sú að bandarískur her færi frá Sádi-Arabíu en í því landi er að finna tvo helgustu staði í íslam. Bandaríkin drógu heri sína frá Sádi-Arabíu 2003 en ekki er ljóst hvort að ákvörðun um það hafði þegar verið tekin fyrir 11. september 2001.

Osama var eftirlýstasti maður vesturlanda og hétu bandarísk stjórnvöld 50 milljónum bandaríkjadala í verðlaun handa hverjum þeim sem veitti upplýsingar sem leiddu til handtöku hans. Dvalarstaður hans var óþekktur en oftast var talið að hann væri í felum í hinu róstusama pakistanska héraði Waziristan, sem er við landamæri Afganistan, eða nálægt hinum pakistanska smábæ Chitral.

Árið 2011 fengu Bandaríkjamenn veður af því að hann dveldist í ákveðnu húsi í borginni Abbottabad í Pakistan, sem er um 75 km norður af Islamabad. Nokkrum mánuðum síðar fengu þeir fulla vissu fyrir því og létu til skarar skríða að skipun Bandaríkjaforseta aðfaranótt 2. maí. Sérsveit gerði árás og eftir snarpan 40 mínútna skotbardaga féll Osama bin Laden ásamt konu sinni inni í herbergi þeirra. Ekki var vitað hvort að Osama Bin Laden hafi verið með sprengjuvesti á sér en það var komið leyfi fyrir því að skjóta hann. Bandaríkjamenn höfðu lík hans á brott með sér út á flugmóðurskip á Arabíuhafi sunnan við Pakistan. Gengið var frá líkinu að hætti múslima og því svo sökkt í sjóinn.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Osama bin Laden fæddist árið 1957 í Ríad í Sádi-Arabíu. Hann var sonur Múhameðs bin Laden og var af einni auðugustu ætt í Sádi-Arabíu.[1] Osama er talinn hafa verið sautjánda barn Múhameðs bin Laden af 52. Faðir hans hafði meðal annars auðgast af vegaframkvæmdum og var talinn hafa byggt 80 prósent af öllum vegum í landinu. Múhameð bin Laden lést í þyrluslysi árið 1968 og Osama erfði eftir hann töluverð auðæfi.[2]

Osama stundaði verkfræðinám í Jeddah og kynntist á þeim tíma íhaldssömum kenningum innan íslams hjá samnemendum og kennurum sínum.[2]

Eftir að Sovétríkin réðust inn í Afganistan árið 1978 ferðaðist Osama til Afganistan til þess að ganga til liðs við andspyrnuhreyfinguna þar. Osama var meðal fjölda múslima, svokallaðra mújahedína, sem töldu það skyldu sína að hjálpa afgönskum trúbræðrum þeirra að verjast ágangi hins kommúníska stórveldis.[1] Undir lok stríðsins, kringum 1988, stofnaði Osama hryðjuverkasamtökin Al-Kaída, til þess að gera félögum sínum kleift að halda baráttunni áfram í heimalöndum sínum. Margir þeirra stofnuðu undirdeildir al-Kaída á heimaslóðum og biðu fyrirmæla bin Laden.[3]

Osama sneri aftur til Sádi-Arabíu eftir að Sovétmenn drógu herlið sitt frá Afganistan árið 1989. Þegar heim var komið komst Osama upp á kant við fjölskyldu sína og við sádi-arabísk stjórnvöld, sem hann sakaði up spillingu. Í fyrra Persaflóastríðinu árið 1991 fordæmdi Osama ákvörðun sádi-arabísku stjórnarinnar um að heimila Bandaríkjunum að halda uppi herstöð í landinu. Árið 1994 sviptu sádi-arabísk stjórnvöld Osama bin Laden ríkisfangi og hann flúði í kjölfarið til Súdans. Í Súdan stýrði Osama þjálfunarbúðum fyrir hryðjuverkamenn en var hrakinn úr landi árið 1996.[1]

Eftir að hafa verið hrakinn frá Súdan sneri Osama aftur til Afganistans og hlaut þar hæli hjá nýrri stjórn Talíbana. Á árunum 1996 til 1998 gaf Osama út röð yfirlýsinga (fatwa) þar sem hann lýsti yfir heilögu stríði (jihad) gegn Bandaríkjunum.[1] Meðal annars gagnrýndi hann Bandaríkin fyrir stuðning þeirra við Ísrael og kallaði stofnun Ísraelsríkis „einn versta glæp mannkynssögunnar“. Þá ganrýndi hann áframhaldandi viðveru bandarískra hermanna í Sádi-Arabíu og vísaði til þeirrar túlkunnar sinnar á orðum spámannsins að varanleg dvöl heiðingja í Arabíu væri óheimil.[4]

Liðsmenn al-Kaída frömdu margar mannskæðar hryðjuverkaárásir á tíunda áratugnum. Meðal annars frömdu þeir sprengjuárás á World Trade Center í New York árið 1993, bílasprengjuárás gegn bandarískum skotmörkum í Sádi-Arabíu árið 1996 og morð á ferðamönnum í Egyptalandi árið 1997.[1] Um sex mánuðum eftir yfirlýsingu Osama árið 1998 voru gerðar árásir á sendiráð Bandaríkjamanna í Keníu og Tansaníu þar sem um 300 manns létust og þúsundir særðust.[2]

Árásirnar 11. september 2001 og eftirmálar[breyta | breyta frumkóða]

Osama bin Laden í myndbandi árið 2001.

Talið er að Khalid Sheikh Mohammed, liðsmaður í al-Kaída, hafi afhent Osama drög að áætlunum um metnaðarfyllri árás gegn Bandaríkjunum árið 1996. Þessar áætlanir urðu grunnurinn að árásinni 11. september 2001 í New York.[4]

Í árásinni tóku al-Kaída stjórn á fjórum farþegaflugvélum og beindu þeim að frægum bandarískum kennileitum. Klukkan kortér í níu að staðartíma flaug ein farþegaflugvélin á norðurturn World Trade Center og fimmtán mínútum síðar brotlenti önnur vél í suðurturninum. Á innan við klukkustund brotlentu hinar tvær flugvélarnar: Ein lenti utan á höfuðstöðvum Pentagon í Virginíu og önnur hrapaði yfir Somerset í Pennsylvaníu. Áhöfn og farþegar fjórðu flugvélarinnar höfðu ráðist gegn hryðjuverkamönnunum og þannig komið í veg fyrir að hún kæmist á leiðarenda en talið er að hún hafi átt að lenda á Hvíta húsinu eða þinghúsinu í Washington.[4] Alls létust tæplega 3.000 manns í árásunum, þar á meðal allir farþegar flugvélanna og allir árásarmennirnir.[5]

Eftir árásina sendu Bandaríkjamenn Talíbönum úrslitakosti og heimtuðu að bin Laden yrði framseldur í varðhald Bandaríkjahers, en Talíbanar höfnuðu þessum kröfum.[6] Bandaríkjamenn hófu í kjölfarið sprengjuárásir á Afganistan þann 7. október 2001 með stuðningi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Í aðdraganda innrásar Bandaríkjanna í Afganistan gaf Osama út ávarp þar sem hann ítrekaði kröfur sínar um að Bandaríkin yfirgæfu herstöðvar sínar í Sádi-Arabíu, hættu viðskiptaþvingunum gegn Írak og hættu stuðningi við hernám Ísraela í Palestínu. Þá ögraði Osama Bandaríkjunum og sagði hremmingar Bandaríkjamanna þann 11. september hefðu aðeins aðeins verið brot af hörmungunum sem íbúar Mið-Austurlanda hefðu upplifað síðustu 80 árin.[7]

Bandaríska innrásarhernum tókst að hertaka Kabúl í desember árið 2001 og binda þannig enda á stjórn Talíbana í landinu. Osama bin Laden og öðrum höfuðpaurum Al-Kaída tókst hins vegar að flýja yfir landamærin til Pakistan.[7]

Ár Osama í felum og dauði[breyta | breyta frumkóða]

Eftir árásirnar á Tvíburaturnana var Osama bin Laden efstur á lista yfir þá hryðjuverkamenn sem Bandaríkjamenn lögðu mesta áherslu á að handsama eða drepa. Bandarísk stjórnvöld höfðu lagt 25 milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé til höfuðs bin Laden. Á árunum eftir flótta Osama til Pakistans var hann talinn felast í fjallahéruðum í norðvesturhluta landsins.[8]

Um miðjan febrúarmánuð árið 2011 komst bandaríska leyniþjónustan CIA að þeirri niðurstöðu að miklar líkur væru á því að Osama bin Laden dveldi í stóru húsi í borginni Abbottabad í Pakistan. Eftir fundi með þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna skipaði Barack Obama árás á húsið þann 29. apríl. Bandarískir sérsveitarmenn gerðu árás á húsið þann 2. maí. Árásin stóð í um 40 til 45 mínútur og leiddi til þess að Osama bin Laden var skotinn til bana. Auk hans drápu bandarísku sérsveitarmennirnir þrjá karlmenn; sendiboða, bróður og son Osama; og eina konu sem einn þeirra skýldi sér á bak við. Líki Osama bin Laden var sökkt í sjóinn í samræmi við íslamska hefð.[8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. ISBN 978-9979-3-3683-9.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Sævar Helgi Bragason (4. maí 2005). „Hvað getið þið sagt mér um Osama bin Laden?“. Vísindavefurinn. Sótt 25. maí 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 Kolbeinn Þorsteinsson (4. maí 2011). „Höfuðóvinurinn fallinn“. DV. bls. 18–19.
  3. Brynhildur Ólafsdóttir (3. ágúst 2004). „Eru al-Kaeda skipulögð samtök eða bara samheiti sem er notað yfir íslamska hryðjuverkamenn?“. Vísindavefurinn. Sótt 25. maí 2024.
  4. 4,0 4,1 4,2 Alexander Kristjánsson (11. september 2021). „Tuttugu ár frá hryðjuverkunum 11. september“. RÚV. Sótt 20. september 2021.
  5. Fanndís Birna Logadóttir (11. september 2021). „Tuttugu ár liðin frá árásinni sem skók heiminn“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. október 2021. Sótt 20. september 2021.
  6. Björn Malmquist (26. febrúar 2017). „Þrátefli í Afganistan“. Kjarninn. Sótt 10. maí 2019.
  7. 7,0 7,1 Magnús Þorkell Bernharðsson 2018, bls. 299.
  8. 8,0 8,1 Bogi Þór Arason (3. maí 2011). „Vekur efasemdir um hollustu Pakistanhers“. Morgunblaðið. bls. 18.