Stundin okkar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stundin Okkar
TegundBarnaefni
UpprunalandFáni Íslands Ísland
FrummálÍslenska
Framleiðsla
MyndatakaEfstaleiti 1, Reykjavík
Íslandii
Lengd þáttar25-50mín
25mín (2023)
FramleiðslaRúv
Útsending
Upprunaleg sjónvarpsstöðRúv
MyndframsetningSDTV 4:3 (Svarthvítt) (1966 til 1975)
SDTV 4:3 (1975 til 200)
SDTV 16:9 (? til ?)
HDTV1080i ?-
Sýnt24. desember 1966
Tenglar
Vefsíða
IMDb tengill

Stundin okkar er barnaþáttur sem er sýndur á RÚV á sunnudögum klukkan 18 (6). Fyrsti þátturinn var sendur út á aðfangadag 1966 skömmu eftir stofnun sjónvarpsins. Stundin okkar er elsti íslenski sjónvarpsþátturinn sem enn er sendur út. Hann hefur lengst af verið sendur út um klukkan sex síðdegis á sunnudögum og tekið 40-50 mínútur í útsendingu. Fyrstu árin var sunnudagshugvekja send út í kortér klukkan sex og síðan tók Stundin okkar við fram að íþróttum klukkan sjö.

Fyrsti umsjónarmaður Stundarinnar okkar var Hinrik Bjarnason kennari og síðar dagskrárstjóri. Strax í febrúar 1967 urðu Rannveig og Krummi (Rannveig Jóhannsdóttir og Sigríður Hannesdóttir) fastur liður í öðrum hverjum þætti og svo vinsæl að flestir tengja þau við þessi fyrstu ár fremur en Hinrik. Krummi var handbrúða sem Hinrik hafði keypt í Þýskalandi. Frá upphafi byggðist þátturinn á blönduðum atriðum frá grunnskólunum, leikhúsunum og aðkeyptu erlendu efni sem stjórnandi þáttarins kynnti fyrir áhorfendum.

Eftir Krumma settu margar brúður svip sinn á þáttinn: Fúsi flakkari kom fram í þáttum Kristínar Á. Ólafsdóttur og Klöru Hilmarsdóttur 1969 til 1970, Glámur og Skrámur (Halli og Laddi) komu fram í þáttum Ragnheiðar Geirsdóttur og Björns Þórs Sigurbjörnssonar 1972 og síðan aftur við og við í mörg ár á eftir, og Páll Vilhjálmsson (Gísli Rúnar Jónsson) kom fram með Sirrý í atriðum sem voru skrifuð af Guðrúnu Helgadóttur. Fjöldinn allur af brúðum kom fram í þáttum Helgu Steffensen 1987 til 1994 og Keli köttur (Steinn Ármann Magnússon) var félagi Ástu Hrafnhildar Garðarsdóttur 1997 til 2001.

Leiknar persónur sem voru þróaðar sérstaklega fyrir þáttinn voru einkenni á þáttum Bryndísar Schram 1979 til 1983 þar sem Þórhallur Sigurðsson leikari þróaði margar af þekktustu persónum sínum, s.s. Eirík Fjalar og Þórð húsvörð. Elías (Sigurður Sigurjónsson) var með atriði skrifuð af Auði Haralds í þáttum Ásu Ragnarsdóttur og Þorsteins Marelssonar frá 1983 til 1985. Gunni og Felix léku samnefndar persónur í þáttum sínum 1994 til 1996 en Þóra Sigurðardóttir og Jóhann G. Jóhannsson gengu skrefinu lengra árið 2002 og bjuggu til persónurnar Birtu og Bárð sem sáu um kynningar í þættinum að hluta. Frá 2006 - 2008 hefur allur þátturinn byggst á samhangandi leiknum atriðum, Ævintýri Stígs og Snæfríðar leikin af Ívari Erni Sverrissyni og Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur, sem eru skrifuð af Leynifélaginu ehf. (Þorgeiri Tryggvasyni, Ármanni Guðmundssyni, Snæbirni Ragnarssyni og Sævari Sigurbjörnssyni). Frá 2008-2011 sá Björgvin Franz Gíslason um þættina ásamt Önnu Svövu Knútsdóttur. Frá 2011-2013 sá Þóra Birna Ingvarsdóttir um þáttinn. Frá 2013-2016 sá Guðjón Davíð Karlsson um þáttinn. Frá 2016-2019 sá Sigyn Blöndal um þáttinn. Frá 2019 hafa börn stjórnað stundinni okkar og í aðalhlutverkum þau Lúkas Emil Johansen og Erlen Ísabella Einarsdóttir.

Þáttaraðir[breyta | breyta frumkóða]

24. desember 1967 var fyrsti þátturinn sendur út. Kynnir var Hinrik Bjarnason sem var með fyrstu þrjár þáttaraðir þáttana. Rannveig og Krummi komu fyrst fram 26. febrúar 1967 og síðan í öðrum hverjum þætti. Til að byrja með voru öll atriði þáttanna íslensk, meðal annars söng- og leikatriði frá grunnskólum, tónlistarskólum og dansskólum, atriði úr barnaleikritum í leikhúsunum og föndur. Meðal fastra liða var Brúðuleikhús Margrétar Björnsson og sænska kvikmyndin Á Saltkráku frá 1964 eftir sögu Astrid Lindgren. Stuttar íslenskar heimildamyndir og leiknar myndir (m.a. þrjár stuttmyndir Ásgeirs Long) voru líka sýndar en fyrsta erlenda efnið sem sýnt var var sænskt barnaefni. Þegar þátturinn fór aftur í loftið eftir sumarfrí 1967 var hann fyrst kynntur sem „kvikmyndaþáttur fyrir börn“. Þá um haustið birtist fyrsta „teiknisagan“, Valli víkingur eftir Ragnar Lár. Þættirnir gátu af sér söngbókina Ég sá mömmu kyssa jólasvein eftir Hinrik 1967 með textum laganna sem Krummi söng og hljómplötuna Rannveig og Krummi sem kom út árið eftir.

Haustið 1968 tók Rannveig Jóhannsdóttir við og var með þáttinn í eina þáttaröð.

Vorið 1969, 19 janúar, tók Svanhildur Kaaber og Birgir G. Albertsson við. Þau stýrðu þáttaröð fimm. Í þessari þáttaröð var fyrst sýnd myndasagan Moli litli eftir Ragnar Lár og brúðumyndin Bjössi bílstjóri eftir Ásgeir Long.

Haustið 1969 tók Kristín Á. Ólafsdóttir og Klara Hilmarsdóttir við. Þau stýrðu fjórum þáttaröðum, þáttaröð sex til tíu. Fúsi flakkari kom fyrst fram í þessum þáttum árið 1970. Meðal efnis voru myndasögur eftir Molly Kennedy og brúðuþættirnir Ævintýri Dodda eftir sögum Enid Blyton auk norrænna teiknimynda frá Nordvision. Umsjón upptöku var í höndum Andrésar Indriðasonar og Tage Ammendrup. Glámur og Skrámur áttu sitt fyrsta innslag 14. febrúar 1971. Gunnar Baldursson gerði brúðurnar sem Andrés Indriðason átti hugmyndina að og skrifaði fyrir en Halli og Laddi ljáðu þeim raddir. Fyrirmyndin að brúðunum voru brúður Jim Hensons í Sesame Street sem fór fyrst í loftið 1969.

Haustið 1971 tók Ásta Ragnarsdóttir við. Hún stýrði tveimur þáttaröðum, þáttaröð ellevu og tólf. Þættirnir voru í umsjá Kristínar Ólafsdóttur og með aðeins breyttu sniði. Þættirnir voru kynntir sem „stutt atriði úr ýmsum áttum til skemmtunar og fróðleiks“.

Haustið 1972 tók Ragnheiður Geirsdóttir og Björn Þór Sigurbjörnsson við. Þau stýrðu einni þáttaröð. Meðal efnis í þessum þáttum voru Glámur og Skrámur og sjónvarpsþættir sænska ríkissjónvarpsins um Línu langsokk frá 1969.

Vorið 1973 tók Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Hermann Ragnar Stefánsson við. Þau stýrðu níu þáttaröðum, þáttaröð fjórtán til tuttugu og tvö. Palli og Sirrý eru þau nöfn sem flestir tengja við þessa þætti. Páll Vilhjálmsson var brúða sem Gunnar Baldursson gerði. Kári Halldór Þórisson og Guðrún Helgadóttir skrifuðu texta fyrir atriðin. Gísli Rúnar Jónsson lék Palla fyrstu árin en síðasta veturinn tók Jörundur Guðmundsson við. Palli kom raunar fyrst fram 5. október 1975 en áður höfðu Glámur og Skrámur verið með innslög í þáttunum. Palli naut mikilla vinsælda. 1976 kom út platan Algjör sveppur með 34 lögum sem Palli (Gísli Rúnar) söng og 1977 kom út bók um hann eftir Guðrúnu.

Haustið 1977 var engin ný þáttaröð heldur var eldra efni sýnt í staðinn.

Vorið 1978 tóku Ásdís Emilsdóttir og Jóhanna Kristín Jónsdóttir við. Þau stýrðu einni þáttaröð. Andrés Indriðason stjórnaði sinni fyrstu upptöku og hélt áfram næstu þrjár þáttaraðirnar.

Haustið 1978 tók Sigríður Ragna Sigurðardóttir við. Hún stýrði einni þáttaröð.

Vorið 1979 tók Svava Sigurjónsdóttir við. Hún stýrði tveimur þáttaröðum, þáttaröð tuttugu og fimm og tuttugu og sex.

Haustið 1979 tók Bryndís Schram við. Hún stýrði átta þáttaröðum, þáttaröð tuttugu og sjö til tuttugu og þrjátíu og fimm. Bryndís og Laddi (Þórhallur Sigurðsson) höfðu samstarf um mörg atriði í þessum þáttum. Samleikur þeirra byggðist að stórum hluta á spuna. Ýmsir sáu um upptökur á þessum þáttum, þeirra á meðal Andrés Indriðason, Egill Eðvarðsson og Tage Ammendrup.

Haustið 1983 tók Ása H. Ragnarsdóttir og Þorsteinn Marelsson við. Þau stýrðu fjórum þáttaröðum, þáttaröð þrjátíu og sex til þrjátíu og níu. Ása og Þorsteinn tóku við þáttunum í apríl 1983. Elías var persóna sem Sigurður Sigurjónsson lék og Auður Haralds skrifaði. Eiríkur Fjalar kom líka fram í þáttunum.

Haustið 1985 tók Agnes Johansen og Jóhanna Thorsteinson við. Þau stýrðu einni þáttaröð.

Vorið 1986 tók Agnes Johansen og Helga Möller við. Þau stýrðu þremur þáttaröðum, þáttaröð fjörtíu og eitt til fjörtíu og þrjú.

Haustið 1987 tók Helga Steffensen við. Hún stýrði fjórtán þáttaröðum, þáttaröð fjörtíu og fjögur til fimmtíu og sjö. Þættir Helgu, sem hafði áður séð um Brúðubílinn frá 1980, byggðust upp á brúðum sem sumar, eins og apinn Lilli, komu líka fram í Brúðubílnum.

Haustið 1994 tók Gunnar Helgason og Felix Bergsson við. Þeir stýrðu fjórum þáttaröðum, þáttaröð fimmtíu og átta til sextíu og eitt. Gunni og Felix léku sjálfa sig í þáttunum. Þeir fluttu meðal annars mikið af frumsömdum lögum eftir Jón Ólafsson sem komu út á plötunum Úti að aka (1997), Jólin (eru alveg að) koma (1997), Landkönnuðir (1998) og Lögin hans Jóns míns (2006).

Haustið 1996 tók Guðfinna Rúnarsdóttir við. Hún stýrði tveimur þáttaröðum.

Haustið 1997 tók Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir við. Hún stýrði tíu þáttaröðum, þáttaröð sextíu og þrjú til sjötíu og tvö. Keli köttur var brúða sem var gerð af Ólafi J. Engilbertssyni og Helgu Arnalds. Steinn Ármann Magnússon lék hann.

Haustið 2002 tók Þóra Sigurðardóttir og Jóhann G. Jóhannsson við. Þau stýrðu tíu þáttaröðum, þáttaröð sjötíu og þrjú til áttatíu og tvö. Þóra og Jóhann kynntu stundum sem þau sjálf og stundum sem persónurnar Birta og Bárður.

Haustið 2007 tók Ívar og Ísgerður við. Þau stýrðu fjórum þáttaröðum, þáttaröð áttatíu og þrjú til áttatíu og sex. Undir þeirra stjórn hét þátturinn Snæfríður og Stígur. Snæfríður og Stígur eru persónur í leikriti sem fjallar um ævintýri þeirra í íbúð galdramanns. Þau eru leikin af Ívari Erni Sverrissyni og Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur.

Haustið 2009 tók Björgvin Franz við. Hann stýrði tveimur þáttaröðum. Veturinn 2009 til 2010 birtist skringileg vera í lífi umsjónarmannsins Björgvins Franz. Það var engin önnur en Fransína mús, húsvörður ævintýragangsins þar sem öll ævintýri heimsins gerast. Saman lentu þau í ótalmörgum ævintýrum með hjálp töfralykils Fransínu.

Haustið 2010 tóku persónurnar Skotta og Rósenberg við. Þau stýrðu sex þáttaröðum, þáttaröð áttatíu og níu til níutíu og fjögur. Sunna Karítasar Oktavía Torfhildar Tildurrófu Aðaldal, sem í daglegu tali var kölluð Skotta og vinur hennar Rósenberg lentu í ýmsum ævintýrum. Loðinlumpurnar, Ása, Gunnar, amma, Bragi og Ægir og fleira skemmtilegt fólk og álfar heimsóttu Skottu í Álfheimana. Þau lentu saman í mörgum æsispennandi ævintýrum og þurftu meðal annars að bjarga veikum bókum, ræna orðasugu og frelsa álfa. En eins og öll góð ævintýri þá endaði þetta vel með hjálp frá góðum vinum og auðvitað Loðinlumpunum.

Haustið 2013 tók Guðjón Davíð Karlsson við. Hann stýrði sex þáttaröðum, þáttaröð níutíu og fimm til hundrað. Gói og Brandon leikhússtjóri bjóða upp á ógleymanleg ævintýri og fræðandi skemmtun fyrir leikhúsrotturnar sem fylla salinn.

Haustið 2016 tók Sigyn Blöndal við. Hún hefur stýrt sex þáttaröðum, þáttaröð hundrað og eitt til hundrað og fimm. Í Stundinni okkar hittir Sigyn skemmtilega krakka um allt land. Þau kynnast skrímslum, læra á gítar, taka þátt í stórhættulegri spurningakeppni og læra ýmislegt og alls konar sem þau höfðum ekki hugmynd um að þau langaði að vita. Sygin og Sindri Bergmann Þórarinsson sáu um dagskrárgerð. Sygin hætti eftir vorið 2019.[1]

Haustið 2019 tóku Lúkas Emil Johansen og Erlen Ísabella Einarsdóttir við.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Sigyn kveður Stundina okkar - RÚV.is“. RÚV. 7. maí 2019.